SAGAN AF SÚPUNNI

Hefurðu gengið fagran skeljasandinn í fjöru Stokkseyrar? Látið heillast af hvítfryssandi öldunum úti við sjóndeildarhringinn og látið gjálfur fjöruborðsins elta þig og tæla. Undir blábleikum himninum sem speglast í vatninu, þessu yfirborði sem freistar og laðar, en er þó svo átakanleg endamörk okkar mannlega heims. Meðan hafmeyjar þjóna til borðs innan um þangvafðar rækjur, klappandi skelfiska og forvitnar ýsur. Þetta er galdrapunktur sem hrífur þig með í annarlegt, ölvað ástand vellíðunar og losta, þú þráir það eitt að sjúga humar í hvítlauk og smjöri, teyga þessa súpu sem jafnan er í gjörgæsludekri og hefur lítið breyst í áranna rás.

Þessi súpa er göldrótt. Hana er unnt að nota við endalaus tilefni og gleðistundir hins daglega lífs, en engin ábyrgð er tekin á hugsanlegum afleiðingum eða æsilegum ævintýrum sem af neyslu hennar kunna að spretta.

Hún hefur nefninlega sjálfstæðan vilja og er því varasöm þeim sem treysta sér ekki upp fyrir normið. Þetta er frægasta humarsúpa lýðveldisins, matreidd af freistandi kokkum sem stíga naktir upp úr hafinu við Stokkseyri með aflann sinn; feitsæta humra sem þráðu það eitt að komast í land, það er nefninlega eins með ævintýragjarna einstaklinga úr sjávarheimum, þeir vilja upp til okkar, líkt og við niður til þeirra.

Þessa súpu hafa menn barist fyrir með storminn í fangið til þess eins að njóta.

Löngunin hefur orðið svo yfirsterk að skynsemi hefur rokið út í veður og vind. Undir svörtum hömrum þrengslanna, á milli fjallasala, undir stjörnunum hafa menn ætt í humátt að sjónum og sest til borðs á meðal manna, veisluglaðra drauga og einhverrar kitlandi nautnar sem umvefur allt sem kemur úr töfrandi skálum Fjöruborðsins. Þar sem þúsund kertaljós kasta birtu á sjóbarin andlit og ástríka vínbelgi. Og hugtakið matarást tekur óvænta en þægilega stefnu.

Fjöruborðið á Stokkseyri er nautnahús í álögum. Menn þurfa að beita sig valdi til að eiga þaðan afturkvæmt. En það er allt í lagi, einungis góðir gjörningar eiga sér stað innan veggja, nokkuð sem kitlar bæði maga og sál.

Og til að færa þeim sem berjast við hina óstjórnlegu löngun í þetta mesta sjávarlostæti íslenskrar vatnaveraldar er búið að fjötra galdrana í þessa skál. Njóttu vel! Mundu að lifa lífinu til fullnustu. Með öllum þeim nautnum og spennu sem fást á góðum degi.